VITAgolf Mánudagsmótaröð GKG

24.05.2021  –  16.08.2021

VITAgolf mánudagsmótaröðin er punktamót fyrir félagsmenn GKG. Spilað verður í tveimur flokkum, karlaflokki og kvennaflokki, og stendur mótið yfir stærstan hluta sumarsins. Mótaröðin er ein sú allra flottasta sem kylfingar geta tekið þátt í enda verðlaunin ekki af verri endanum en fyrsta sæti í karla og kvennaflokki fá sæti í næstu golfferð GKG með VitaGolf. 

Kylfingar hafa 12 tilraunir til þess að ná inn þremur góðum hringjum, en það eru bestu þrír hringirnir sem telja til úrslita. Mótið hefst þann 24.05.2021, og verður spilað á hverjum mánudegi, fyrir utan meistaramótsvikuna, fram að 16.08.2021.

Kylfingar sem taka þátt í mótinu hafa tækifæri til að skrá sig tæpa viku fram í tímann, eða frá og með þriðjudegi vikuna áður. Þetta verður því kjörið tækifæri til þess að tryggja sér rástíma á Leirdalsvelli með lengri fyrirvara en venjulega.

ATH þegar þið skráið ykkur skuluð þið velja hvaða teig þið ætlið að spila á. Þeir aðilar sem skila skorkorti með engri eða rangri leikforgjöf/vallarforgjöf fá frávísun á viðkomandi hring. Ef réttur teigur er hringaður á skorkortinu, jafngildir það réttri leikforgjöf.

Hægt er að fylgjast með stöðu mótaraðarinnar á golfbox, en sérstakur stigalisti er fyrir mótið.

Vegleg verðlaun verða veitt fyrir efstu þrjú sætin, bæði í karla– og kvennaflokki. Verðlaunaskrá 2021, í hvorum flokki er:

  1. sæti = Gjafakort í vorferð GKG með VITAGolf auk glaðnings frá Ölgerðinni og eignabikars.
  2. sæti = 10.000 kr. inneign hjá Matarkjallaranum, 10.000 kr. inneign hjá Olís auk glaðnings frá Ölgerðinni
  3. sæti = 10.000 kr. inneign hjá Olís auk glaðnings frá Ölgerðinni

Mótsstjórar árið 2021 eru Eggert Ólafsson og Fannar Aron Hafsteinsson.

Reglur fyrir VITAgolf – Mánudagsmótaröð GKG 2021

1.gr
Um mótið
VITA-Mánudagsmótaröð GKG er punktamót fyrir félagsmenn GKG (innanfélagsmót) þar sem leiknir eru 3 til 12 18 holu hringir á Leirdalsvelli. Keppt verður í karlaflokki og kvennaflokki um titlana Mánudagsmótameistari karlaog Mánudagsmótameistari kvennahjá GKG.

2.gr
Keppnisréttur og hámarksforgjöf
Aðeins félagar í GKG hafa keppnisrétt í punktamótinu. Hámarksleikforgjöf er 36 hjá körlum og konum.

3.gr
Fjöldi hringja
Hver leikmaður getur leikið allt að 12 hringi en aðeins 3 bestu hringirnir telja.

4.gr
Skráning og vikudagar

Lokafrestur til skráningar er á miðnætti aðfaranótt hvers keppnidags, en keppt er á mánudögum. Skráning fer þannig fram að viðkomandi skráir sig á golfbox.golf í mótið og greiðir fyrir hringinn með korti. Samhliða þarf að skrá sig á rástíma á mánudeginum. Það er gert með því að:

A) Ef ekki er búið að opna fyrir rástímaskráningu fyrir félagsmenn er sendur tölvupóstur á proshop@gkg.is með beiðni um rástíma.

B) Ef búið er að opna fyrir rástímaskráningu skráir félagsmaður sig sjálfur.

Möguleikar verða á rástímum hvenær sem er dagsins.

5.gr
Teigar og forgjöf
Leikmaður ræður af hvaða teig hann leikur og tekur leikforgjöf (vallarforgjöf) hans mið af því. Notuð verður grunnforgjöf eins og hún er á golfbox.golf þegar leikur fer fram, við útreikning leikforgjafar, þó með hámarksleikforgjöf skv. 2.gr..  Skylt er að leika af þeim teigum sem leikmaður er skráður á hverju sinni. Þeir sem leika af röngum teigum eða skila skorkorti með rangri forgjöf fá frávísun á þann hring.

6.gr
Skorkort
Fyrir mót fá keppendur tölvupóst með hlekk á skorkortaskráningu. Að leik loknum fara keppendur yfir skor hvors annars. Krafa er gerð um að undirrituðu skorkorti sé skilað innan sólarhrings. Skorkortum er skilað til starfsfólks proshop, ef búið er að loka hjá þeim er hægt að senda mynd af undirrituðu skorkorti á fannar@gkg.is. Keppandi skal leika hvern hring með að minnsta kosti einum öðrum leikmanni til þess að hringurinn teljist gildur. Sá leikmaður þarf þó ekki að vera keppandi.

7.gr
Úrslit
Ef efstu leikmenn verða jafnir að punktum í lok mótsins gilda þær reikniaðferðir sem fram koma undir Ákvörðunum mótaraðarinnar á golfbox.golf.

8.gr
Sigurvegarar og verðlaun
Sigurvegarar VITA – Mánudagsmótaraðar GKG ár hvert hljóta titlana Mánudagsmótameistari kvenna og Mánudagsmótameistari karlaog fylgja titlunum farandgripir. Einnig hljóta punktameistarar verðlaunagripi til eignar. Verðlaun verða veitt fyrir fyrstu þrjú sætin í hvorum flokki, karla og kvenna. Jafnframt verða sérstök verðlaun veitt fyrir 10. hvert sæti í hvorum flokki, þ.e. fyrir 10., 20., 30. sæti og svo framvegis.
Verðlaunaafhending fer fram í lokahófi innanfélagsmóta GKG.

Mótsstjórar 2021 eru Eggert Ólafsson og Fannar Aron Hafsteinsson

Opnað er fyrir skráningu fyrir næsta mánudag klukkan 00:00 þriðjudaginn áður. 

Farið er inn á mótaskrá í golfbox og næsta mögulega VITAgolf mót valið. 

Greitt er við skráningu, en mótsgjald er 500 kr. 

Skráningarfresti lýkur sunnudagskvöld klukkan 23:59, engar undantekningar verða gerðar á skráningum sem berast síðar. 

Skorkóði verður sendur á keppendur að morgni mánudags og áður en keppendur hefja leik skulu þeir sækja skorkortin sín í golfverslun GKG.